Fundurinn 2. desember er í umsjón Samfélagsþjónustunefndar. Hildur Sólveg verður með 3ja mín. erindið en fræðsluerindi dagsins fjallar um skaðaminnkandi nálgun og Frú Ragnheiði.
Skaðaminnkandi hugmyndafræði (e. harm reduction) er gagnreynd nálgun í vinnu með einstaklingum sem nota vímuefni og þeim sem þróa með sér þungan vímuefnavanda. Skaðaminnkandi inngrip leggja áherslu á að fyrirbyggja áhættu og skaða sem fylgir notkun löglegra og ólöglegra vímuefna, fremur en að reyna að fyrirbyggja sjálfa notkunina. Undirstaðan í skaðaminnkandi hugmyndafræði er tvíþætt, lýðheilsa og mannréttindi.
Í skaðaminnkandi nálgunum er lögð áhersla á að mæta fólki þar sem það er statt hverju sinni, að virða sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga og að að sýna fólki virðingu, skilning og samhygð. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Evrópska eftirlitsstofnunin um vímuefni og vímuefnafíkn (EMCDDA) leggja áherslu á alhliða og ítarlega innleiðingu skaðaminnkandi inngripa og nálgana í samfélaginu.
Frú Ragnheiður var sett á laggirnar af Rauða Krossinum árið 2009 á höfuðborgarsvæðinu og byggir á hugmyndafræði skaðaminnkunar. Verkefnið hefur þann tilgang að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu eins og húsnæðislausra einstaklinga og einstaklinga sem nota vímuefni um æð og bjóða þeim skaðaminnkandi þjónustu í formi heilbrigðisþjónustu og nálaskiptiþjónustu. Heilbrigðisþjónusta Frú Ragnheiðar veitir meðal annars aðhlynningu sára, sýklalyfjameðferð, umbúðaskipti, saumatöku og almenna heilsufarsskoðun og ráðgjöf. Á hverri vakt starfar hjúkrunarfræðingur og læknir sem sinnir bakvakt.
Fyrirlesarar verða Hafrún Elísa Sigurðardóttir og Kristín Davíðsdóttir.
Hafrún starfar sem sérfræðingur í skaðaminnkun hjá Frú Ragnheiði. Hún byrjaði að starfa hjá Frú Ragnheiði árið 2019 en hefur unnið lengi í málaflokknum og þá helst í athvörfum og neyðarskýlum fyrir heimilislaust fólk.
Kristín Davíðsdóttir er verkefnastýra og hjúkrunarfræðingur Frú Ragnheiðar. Hún byrjaði að starfa hjá Frú Ragnheiði núna árið 2021 en hún hefur verið að starfa á Landspítalanum og var meðal annars aðstoðardeildarstjóri á A-7 smitsjúkdómadeild.
Samfélagsþjónustunefnd skipa þau Palli, Hildur, Örn, Birgir og Börkur.