Langtímaáhrif skilnaðar

fimmtudagur, 18. nóvember 2021 07:45-08:45, Jötunheimar Skátafélagið Vífill 210 Garðabæ
Langtímaáhrif skilnaðar á líðan barna geta verið verulega íþyngjandi, fyrir börnin sjálf og samfélagið. Það er oft ekki skilnaðurinn sjálfur sem veldur mestum skaða, heldur það hvernig staðið er að honum gagnvart börnunum. Bæði íslenskar og erlendar rannsóknir benda skýrt til þess að hægt sé að lágmarka skaðsemi skilnaðar ef foreldrar fá tímanlega aðstoð við að vinna úr tilfinningalegri togstreitu og ná að vinna  saman í skilnaðarferlinu.  Með því að veita aðstoð og þjónustu á fyrri stigum, með ráðgjöf hjá félagsþjónustu, standa vonir til þess hægt sé að draga úr líkum á ágreiningi á milli foreldra. Samkvæmt nýlegum upplýsingum frá Hagstofu Íslands lýkur tæplega 40% hjónabanda á Íslandi með lögskilnaði, en þá er ótalinn sá hópur foreldra sem á börn saman og slítur sambúð. Það má því ætla að um sé að ræða um það bil 1100 - 1200 börn árlega á landsvísu sem verði fyrir áhrifum af skilnaði foreldra, eða í kringum 700 barnafjölskyldur á ári. 
Gyða Hjartardóttir er einn helsti sérfræðingurinn á bak við verkefnið Samvinna eftir skilnað - barnanna vegna (SES) sem er stafrænn fræðsluvettvangur fyrir foreldra í skilnaðarferli og hins vegar sérhæfð skilnaðarráðgjöf fyrir fagfólk félagsþjónustu sveitarfélaga. Gyða útskrifaðist sem félagsráðgjafi frá Háskóla Íslands árið 1993 og tók meistarapróf við Háskólann í Álaborg nokkrum árum síðar. Gyða hefur mikla reynslu af að starfa með börnum og foreldrum, bæði úr barnavernd, hjá félagsþjónustu sveitarfélaga og í núverandi starfi sínu hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Þá sinnir Gyða einnig kennslu í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. 
Nú hefur verið opnað fyrir rafrænan vettvang um sérhæfða skilnaðarráðgjöf, samvinnaeftirskilnað.isVerkefnið er unnið að danskri fyrirmynd og byggir efnið á nýjustu þekkingu, sem byggir á bæði rannsóknum fræðimanna og reynslu fagfólks. Verkefnið verður til að byrja með í samvinnu við tvö sveitarfélög, Hafnarfjörð og Fljótsdalshérað. Markmið verkefnisins er að þróa og innleiða nýtt vinnulag í félagsþjónustu og efla félagslega ráðgjöf með áherslu á skilnaðarmál, forsjár- og umgengnismál, barnanna vegna.  
Helga Guðný verður með 3ja mín. erindi en fundurinn er í umsjón ungmennaþjónustunefndar sem skipa Vigdís, Helga Guðný, Sólveig, Sigurjóna og Margrét Teitsd.Gyða Hjartardóttir