Vel mætt á fyrsta fund ársins. Ný stjórn kynnt. Efni dagsins: UNICEF á Íslandi og börn.
Fundurinn var í umsjón Alþjóðaþjónustunefndar.
Guðmundur verðandi forseti setti fundinn og kynnti nýja stjórn fyrir næsta starfsár og var hún samþykkt. Stjórnina skipa:
Guðmundur Egilsson forseti,
Sigríður Björk Gunnarsdóttir verðandi forseti,
Hanna Þóra Guðjónsdóttir ritari,
Árni Jón Árnason stallari,
Knútur Þórhallsson gjaldkeri og
Þyri Þorsteinsdóttir fráfarandi forseti.
Fyrir hönd félagaþróunarnefndar vildi Árni Jón minna okkur á að líta í kringum okkur varðandi öflun nýrra félaga og fór hann aðeins yfir tölfræðina varðandi samsetningu klúbbfélaga.
Ólöf var með þriggja mínútna erindi sem hún nefndi "Að elta drauma sína" og var á persónulegum nótum. Ólöf sagðist alltaf hafa haft mikinn áhuga á börnum og hún hefði skoðað skóla í 16-17 löndum. Hún nefndi sérstaklega S-Afríku í þeim efnum. Ólöf og dóttir hennar, sem er verðandi kennari, ætla að fara til Suður-Afríku í haust og eyða þar nokkrum mánuðum og aðstoða við menntun barna þar í landi.
Bergsteinn Jónsson framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi var gestur dagsins enda góð tenging við innleggið sem Ólöf færði okkur. Erindi hans nefndist"Starf UNICEF í þágu barna á Íslandi"
Bergsteinn sagði að starf UNICEF á Íslandi myndi snúast að mestu um um að afla fjár fyrir starf erlendis en þó myndi 5% renna til verkefna innanlands. Þar nefndi hann t.d. Barnasáttmálann, barnvæn sveitarfélög og Réttindaskóla UNICEF.
Barnasáttmálinn á sér langa sögu en börn búa við þá sérstöðu að vera réttindalaus. Árið 1979, á ári barnsins, var ákveðið að vinna að Barnasáttmálanum og var hann fullgildur að hálfu Íslands árið 1992. Árið 2013 var sáttmálinn svo lögfestur á Íslandi.
Sáttmálinn sýnir að það er mikilvægt að hafa réttindi, annars er hætta á að við förum með börn eins og nokkrar fordómafullar setningar sem Bergsteinn sýndi okkar, s.s. "börn eru í eðli sínu hömlulaus og óþroskuð"Hann segir að það sé mikilvægt að koma boðskapnum á framfæri, þetta sé einskonar gildavinna, eða innleiðing á barnvænum sjónarmiðum. UNICEF hefur farið í 2 verkefni sem miða að því að nota Barnasáttmálann sem gæðastaðal. Það tengist annars vegar sveitafélögunum og hins vegar skólakerfinu. Þetta sé innleiðing sáttmálans sem gæðakerfi og byggi á fjórum grundvallarreglum sáttmálans sem eru:
· Jafnræði - bann við mismunun.
· Það sem barninu er fyrir bestu
· Réttur barnsins til að lifa og þroskast
· Réttur barnsins til að tjá sig og hafa áhrif
Um er að ræða tilraunaverkefni sem lýkur með vottun á Akureyri 2019 og byrjað er að vinna að í Kópavogi.
Bergsteinn minnti okkur á að menn væru alltaf hræddir við að valdefla aðra, í því felst að þá þurfum við að gefa frá okkur vald. Það sé mikilvægt að samfélög fari ekki á mis við þann mikla brunn sem börn eru. Börn sjá oft hluti sem aðrir sjá ekki. Hann sagði að til stæði að stofna nokkurs konar umboðsmann barna á Akureyri. Vinna þyrfti að gagnkvæmri virðingu barna og fullorðinna. Hann nefndi einnig réttindaskóla UNICEF sem Flataskóli tekur m.a. þátt í en þá er stofnað réttindaráð innan skólans. Viðhorfskönnun í Flataskóla sýnir að börnin eru komin með mun meiri réttindavitund eftir að hafa tekið þátt í verkefninu.
Að lokum sagði Bergsteinn að við ættum að tala um réttindi og virðingu í staðinn fyrir réttindi og skyldur. Eins og oft áður voru umræðurnar miklar í lokin.