Fundargerð 6. september 2018

fimmtudagur, 6. september 2018

Sigurjóna Jónsdóttir

Stór málefni voru tekin fyrir í dag á stuttum tíma. Ari Kristinn Jónsson rektor HR var gestur dagsins.

Þyri forseti setti fundinn og talaði m.a. um að við myndum virða fundartímann og halda okkur innan tímarammans.
Í byrjun notað Guðmundur félagi okkar þrjár mínútur til að tala um flugið til Nepal, hann benti á að þeir sem ætluðu með þyrftu að fara að ákveða sig, allavega ef þeir vilja fara með hópnum og fá flugið á hagstæðu verði.

Ari Kristinn Jónsson hinn geðþekki rektor Háskólans í Reykjavík var gestur fundarins í dag.  Ekki laust við að maður fyllist í senn bjartsýni og kvíða við að melta erindið. Svo áhugavert að samantektin hér verður eflaust í lengra lagi
Ari fjallaði um yfirstandandi tæknibyltingu sem stundum er kölluð fjórða iðnbyltingin. Hann lagði áherslu á að við værum í tæknibyltingunni, ekki á leiðinni þangað.
Hann tók dæmdi um ung fyrirtæki eins og Uber, airbnb  og Amazon sem hefðu vaxið gríðarlega á skömmum tíma en ættu ekki áþreifanlegar eignir.
Ari benti á að gervigreind kæmi víða við sögu, s.s. í krabbameinsmeðferð, sjálfkeyrandi bílar, til að fylgjast með eldri borgurum og til að þróa bakteríur.
Mannfólkið er næst best, já þar höfum við það,  sem dæmi nefndi hann sjokkið sem menn fengu þegar tölvan fer að vinna meistarana í skák (sem var fyrst 1997)
Af hverju fjórða iðnbyltingin? Þetta er allt starfrænt og nanó tækni, smíðað úr sameindum og unnið af allt annarri stærðagráðu en áður.
Ari segir að þetta muni hafi meiri áhrif næstu 20 til 30 árin en síðustu 200 ár. Lykillinn verður sköpunargáfa og hönnun.  Við verðum að stjórna tækninni, sem gerir okkur kleift að vera skapandi og gera það sem við erum best í og losna við endurtekningar.
Þrátt fyrir þetta fer nú ekki allt til fjandans eins og Ari sagði og störfin okkar hverfa ekki öll. Það væru endurtekningarstörf sem myndu hverfa, önnur störf breytast og ný störf verða til.
Já gott fólk, kannski verðum við bara innan tíðar í íþróttadressi eða jakkafötum fullu af skynjurum sem fylgist með því hvernig við högum okkur. Sjálfkeyrandi bíllinn eða dróninn skutlar okkur kannski bara á spítalann í staðinn fyrir vinnuna því tölvurnar vita miklu miklu meira en við sjálf um okkur sjálf.