Fundargerði 27. september 2018

fimmtudagur, 27. september 2018

Sigurjóna Jónsdóttir

Vel heppnaður fundur í morgun og áfram frábær mæting. Gestur okkar var Helga Hlín Pálsdóttir frá Íslandsstofu.

Þyri forseti setti fundinn og óskaði afmælisbörnum september til hamingju. Vinsæll mánuður, því 6 félagar okkar hafa átt afmæli í mánuðinum. Stella átti stóræfmæli og var sextug, einnig áttu Íris, Kristinn, Páll, Sigrún og Sigríður Hulda afmæli.

Páll félagi okkar var með þriggja mínútna erindi. Hann sagði okkur frá fyrirhugaðri dvöl hans með fjölskyldunni á austurströnd Bandaríkjanna fram að jólum. Lára konan hans er í vinnuhópi sem fjallar um áskoranir á heimskautunum og mun hún vinna að því verkefni meðan á dvölinni stendur. Páll ætlar að vera heimavinnandi og fylgja syninum eftir í skólanum. Að sjálfsögðu er hann búinn að finna fjóra Rótarýklúbba á svæðinu sem hann ætlar kanna. Við kveðjum Pál í bili og hittum hann aftur á nýju ári og hlökkum til að heyra af dvöl fjölskyldunnar.

Gestur okkar í dag var Helga Hlín Pálsdóttir hjá Íslandsstofu Hún sagði okkur frá starfi Íslandsstofu og átakinu Inspired by Iceland. Virkilega fróðlegt.
Íslandsstofa starfar í þágu fjölmargra aðila. Þar nefndi hún til dæmis skapandi greinar. Hér á landi séum við örsmá í hinum stóra samanburði, hérlendis eru 13 manns sem starfa undir einum hatti en til samanburðar nefndi hún Svíþjóð þar sem 100 manns störfuðu á sama vettvangi. Hún sagði að gerð hefði verið markhópagreining, um væri að ræða þrjá hópa sem kæmu til landsins, lífsglaða heimsborgarann, sjálfstæða landkönnuðinn og makindalega menningarvitann. Unnið væri út frá áherslum á lífsglaða heimsborgarann. Áhersla væri á lykilmarkaði eða þangað sem væri beint flug. Hún sagði að HM í sumar hefði haft mikil áhrif og fjölmargar fyrirspurnir hefðu komið í kjölfarið. Hún sagði okkur frá 8 loforðum sem ferðamenn væru hvattir til að undirrita til að auka ábyrgð þeirra, um væri að ræða vitundavakningu og þessu hefði verið tekið mjög vel. Aðrar þjóðir væru farnar að líta til þessa verkefnis.
Hún sagði okkur frá markaðsherferðinni Team Iceland, að gerð hefðu verið 12 myndbönd alls, en af þeim höfum við líklega flest séð forsetahjónin í fótbolta. Núna er verið að vinna sambærilegt verkefni sem heitir A til Ö. Þar er áhersla lögð á íslenska stafrófið og landshlutana og sýndi hún okkur skemmtilegt myndband úr þeirri seríu þar sem húmorinn er hafður að leiðarljósi.
Alveg frábært starf sem fáir einstaklingar inna af hendi og ekki annað hægt en að vera stoltur íbúi þessa lands eftir að hafa hlustað á Helgu Hlín.