Fundargerð 4. október 2018

fimmtudagur, 4. október 2018

Sigurjóna Jónsdóttir

Margar hugleiðingar vöknuðu í morgun þegar hin ótrúlega Brynja Guðmundsdóttir frumkvöðull, fjárfestir og ráðgjafi kom í heimsókn.

Óhætt er að segja að það hafi verið áhugaverð erindi sem við fengum á fundinum í morgun. Margar spurningar sitja eftir.
Þyri setti fundinn og minnti okkur á umdæmisþingið sem er á Selfossi í október. Nýja Rótarýsíðan er komin í gagnið www.rotary.is og Þyri hvatti okkur til að fara inn á síðuna og setja inn myndir af okkur.
Hanna Þóra var með þriggja mínútna erindi þar sem hún sagði okkur frá 5 fermetra gróðurhúsi sem hún hefur á lóð sinni. Snilldarhönnun, þar sem hún ræktar allt mögulegt, þar á meðal kirsuber, perur og plómur.
Fyrirlesari dagsins var hin ótrúlega Brynja Guðmundsdóttir frumkvöðull, fjárfestir og ráðgjafi. Erindi hennar bar heitið Að þora. Hún sagðist snemma hafa verið byrjuð í fumkvöðlastarfinu, sem barn hefði hún til dæmis selt görótta drykki og stofnað fótboltafélag.
Mistök eru bara gerð af þeim sem þora. Við þurfum þora að vera við sjálf, þora að vera öðruvísi og þora að vera með aðra skoðun en aðrir. Slæm ákvörðun væri oft betri en engin ákvörðun. Hún sagði að á Íslandi vantaði að vera gagnrýnin. Það væri gott að hugsa út það versta sem gæti gerst, það væri ekki endilega svo slæmt (og sýndi okkur mynd af sundlauginni á Álftanesi)
Draumur hennar rættist um að stofna fyrirtæki, Gagnavarslan/AZAZO, þar sem hún var með 50 starfsmenn í 6 löndum og stýrði því í 10 ár. Draumurinn endaði ekki eins og hún vildi. Hún sagði okkur frá því að stjórnarfomaður fyrirtækisins hefði beitt hana kynferðislegu áteiti. Henni var einfaldlega stillt upp við vegg, hún mætti mikilli grimmd og var látin ganga út úr eigin fyrirtæki. Hún ákvað að þegja ekki og hvatti alla til að standa með eigin fólki.
Hún sagði að það væri rosa erfitt og rosa gaman að vera frumkvöðull, það væru smærri fyrirtækin sem væru drifkraftur atvinnulífs og það vantaði oft þá sem væru á gólfinu, til að sitja í stjórnun fyrirtækja. Í dag er Brynja með fyrirtæki sem heitir Máttur kjarnans þar sem megin þemað er að hjálpa öðrum.
Brynja endaði á því að segja okkur að vakna ekki upp á elliheimilinu einn daginn og segja „ég hefði átt að þora að...“ Frábær kona sem þorir og eiginlega bara erfitt að átta sig á hvernig hægt er að vera svona drífandi áfram, eftir allt það mótlæti sem hún hefur þurft að upplifa til að elta drauma sína.