Fundur 23. mars - Guðríður Helgadóttir fjallaði um Ikea

fimmtudagur, 23. mars 2023

Þorkell Lillie

Vissuð þið að það tekur 2 mínútur og 46 sekúndur að ganga rösklega stystu leið í gegnum Ikea, án þess að vera sakaður um flótta eða snúinn niður af öryggisverði?

Það gerir ritari örsjaldan því að hann heldur mikið upp á Ikea.  En eins og gefur að skilja, og sem betur fer, þá er misjafn smekkurinn og Ikea ekki allra.

Ikea var einmitt umræðuefnið 23. mars þegar gestur klúbbsins var Guðríður Helgadóttir en Guðríður hefur unnið nær samfellt hjá Ikea við vöruframsetningar síðan 1998.

Guðríður sagði okkur frá fyrirtækinu, stofnun þess 1943 af Ingvar Kamprad og gildum fyrirtækisins.  Hún sagði okkur frá reglum við uppstillingu í versluninni og þeim “veiðarfærum” sem sett eru fyrir viðskiptavini.  Guðríður nefndi að “veiðarfærin” væru svo góð að starfsmenn Ikea lenda stundum í þeim líka.  Stór partur af starfi við uppstillingar er að sjálfvirknivæða innkaupin og hjálpa viðskiptavininum að rata á milli vara og deilda.

Áður en Guðríður sagði okkur frá Ikea fór Gísli Sigurgeirsson yfir fall nokkra banka, stöðu efnahagsmála og hvað er að valda óróa í efnahag heimsins.

Sögupunktar Ellu voru á sýnum stað, ekki hægt að vera án þeirra.  Hún minntist á “Djörf og þau fallegu” frá USA, ógleymalegur menningararfur USA sem hefur hreyft við mörgum og fengið mann og annan til að spyrja sig “Hvers vegna get ég ekki verið svona?”

Næsti fundur verður í höndum Alþjóðaþjónustunefndar, 30. mars og er það síðasti fundur fyrir páskafrí.  Meira um það seinna.