Fundargerð 22. nóvember 2018

fimmtudagur, 22. nóvember 2018

Sigurjóna Jónsdóttir

Hildur Ingvarsdóttir skólameistari Tækniskólans heimsótti okkur í dag þar sem hún talaði um iðn- og tækninám.

Þyri setti fundinn og sem var sá þrettándi á starfsárinu. Hún vísaði m.a. í bréf Hönnu Maríu vegna skiptinemastarfs Rótarý. Elín félagi okkar var svo með þriggja mínútna erindi þar sem hún sagði okkur frá niðurstöðum fyrirtækisins Rannsókna & greiningar sem hún hlustaði á nýlega. Rannsókn var gerð fyrr á þessu ári meðal efstu bekkja grunnskólans og þar er meðal annars vísað í mikilvægi þess að eyða tíma með börnunum okkar.

Fyrirlesari dagsins var Hildur Ingvarsdóttir skólameistari Tækniskólans. Erindi hennar bar heitið Iðn- og tækninám – til vegs og virðingar.  Hildur sagði okkur fyrst stutt frá sjálfri sér. Hún lærði verkfræði og tók kennsluréttindanám og starfaði síðustu ár sem framkvæmdastjóri Veitna áður en hún tók við núverandi starfi fyrr á þessu ári. Hildur hefur haft tengsl við Rótarý en mamma hennar vann lengi vel á skrifstofu Rótarý og sjálf fór hún erlendis á sínum tíma á vegum Rótarý. Tækniskólinn sem Hildur stýrir er stærsti framhaldsskóli landsins með um 2500 nemendur og 250 starfsmenn. Stærstur hluti námsins er á framhaldsskólastigi en þó er hluti þess á fjórði hæfniþrepi sem teygir sig inn á háskólastigið. Kennt er í 10 byggingum á 5 mismunandi stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Veruleg aukning umsókna var í iðngreinar síðasta vor en þá innrituðust 16% nemenda sem luku 10. bekk á verk- eða starfsnámsbrautir. Hlutfallið var 12% árið áður. Hildur telur ástæðurnar nokkrar, meðal annars var stærri hópur að koma úr grunnskóla og meiri umræða hefur skapast í samfélaginu. Þó sást þessi aukna ásókn í iðngreinar ekki í skólunum úti á landi. Þó aukningin hafi verið síðasta haust er aðsóknin alls ekki næg. Hún taldi marga þætti hafa þar áhrif og hún nefndi til dæmis að það vantaði meira verknám inn í grunnskólana, auka þyrfti vitund í skólunum og viðhorf foreldra þyrfti að breytast. Árið 2016 töldu 35% nemenda sem stunduðu bóknám til stúdentsprófs að nám í verklegum greinum hentaði þeim betur en bóknám og 66% nemenda í framhaldsskólum á Íslandi höfðu áhuga á að taka fleiri verklega áfanga. Rannsóknir hafa einnig sýnt að um þriðjungar þeirra sem er í bóknámi telur að það henti ekki. Flestir telja að náttúrufræðibrautin sé hin eina rétta leið sem haldi öllum leiðum opnum í framhaldinu. Hildur segir mikilvægt að nám til sveinsprófs sé metið til jafns við stúdentspróf og vísaði í nýlegt dæmi sem var í umræðunni í fjölmiðlum þar sem sveinspróf var ekki metið til jafns á við stúdenspróf. Í iðnnámi er hindrunin oft að komast á námssamning og það helst oft í hendur við efnahagsástandið hversu gott er að komast á samning. Hildur líkti þessu við nám í tannlækningum þar sem slíkur nemandi þarf ekki að stoppa sinn námsferil þegar kemur að verklegri þjálfun, hún væri tryggð í náminu en annað væri uppi á teningnum hjá iðnnemum. Einnig benti hún á að lengd námssamninga væri mjög mismunandi eftir iðngreinum. Skólinn og atvinnulífið þyrftu að vinna þetta betur undir einum hatti.  Heimurinn hefði breyst og kalla þyrfi á breyttar kennsluaðferðir. Hún sagði okkur til dæmis frá verkefnastýrðu námi í rafiðngreinum. Þar var byrjað að hugsa breytingarnar út frá nemendum sem sváfu í tímum.  K2 er ný stúdentsleið Tækniskólans sem er hugsuð í samvinnu við atvinnulífið. Í lokin lagði Hildur áherslu á það að enginn lokaði leiðum í dag með því að fara í iðnnám. Greinilegt að Hildur hefur brennandi áhuga á nýja starfinu sínu og sagðist hún eiga eftir margt ólært því tengdu.