Við fengum góðar móttökur í dag í sprotafyrirtækinu Controlant
Í dag heimsóttum við Controant sem er spennandi sprotafyrirtæki á Grensásveginum. Stefán mannauðsstjóri og einn af fimm stofnendum fyrirtækisins tók á móti okkur.
Starfsemin er í stuttu máli flutningskeðja þar sem verið er að vakta lyf, matvæli og fleira meðan á flutningi stendur. Hugmyndin er sprottin úr háskólaumhverfinu uppúr árinu 2004 og er byggð á tækni. Árið 2009 dettur fyrirtækið inn á lyfjamarkaðinn þegar Landlæknisembættið var að flytja inn bóluefni í kjölfar svínaflensunnar (en bóluefnið þarf að geymast við 2 til 8 gráður til að skemmast ekki).
Í dag starfa 42 í fyrirtækinu hér á landi, þar af 17 í þróunardeild, auk þess eru 2 erlendis. Fyrirtækið er með um 200 viðskiptavini. Í þeim hópi eru lyfjafyrirtæki og skyndibitakeðjur fyrirferðamest. Verið er að vakta sendingar, vakta staðbundið (t.d. vöruhús) og vakta sjálft flutningskerfið (s.s. bíla og þess háttar).
Mikið af mat og lyfjum er sóað í heiminum og markmiðið er að minnka sóun. Stefán segir að vinna fyrirtækisins byggist að miklu leyti á því að hugsa til framtíðar. Megin markmiðið er að tryggja öryggi og gæði og minnka sóun. Stefán tók dæmi frá Afríku þar sem um helmingur af bóluefni eyðileggst vegna þess að það er ekki geymt við rétt hitastig. Nánast öll gögn fyrirtækisins eru í rauntíma og um leið og eitthvað breytist þá sér fyrirtækið það og geta gripið inn í ferlið.
Stefán segir að það sé oft flókið fyrir þau að fá skynjarana sem notaðir eru til baka og á þeim séu mikil afföll, mikilvægt sé að yfirfara þá alltaf til að vera viss um að þeir séu að virka rétt. Hann sýndi okkur mynd af korti frá USA þar sem skyndibitakeðja er að nota kerfið þeirra og þar hvar nemarnir eru í notkun í rauntíma. Hann sagði að þau söfnuðu mikið af gögnum til að greina, t.d. væri hægt að sjá að ákveðnir flugvellir eða ákveðnar hafnir væru stöðugt vandamál og þá væri hægt að bregðast við því. Hann sagði að þrennt væri Rauntími, upplýsingar á skynjunum og að þau vildu vera samstarfsaðilar sinna fyrirtækja.
Margar góðar vangaveltur komu frá klúbbfélögum eftir innlegg Stefáns og og í framhaldinu sýndi hann okkur aðstöðuna þar sem vélbúnaður fyrirtækisins, skynjararnir eru settir saman. Hann sagði að þau myndu setja saman um 2500 skynjara á mánuði (ef ritari man rétt) og að í umferð væru alls um 60 þúsund skynjarar um allan heim.
Góð heimsókn þar sem vel var tekið á móti okkur. Í fyrirtækinu hefur greinilega mikil og öflug vinna átt sér stað þar sem hefur þurft til þolinmæði, hugmyndauðgi og seiglu til að gefast ekki upp. Það verður spennandi að fylgjast með hvernig sprotinn sprettur áfram.