Fundurinn í dag var fundur opinberunar og hugmynda. Þegar yfir lauk vissi maður að til væri skemmtilegur leikur til að leiðast ekki í umferðinni, að Snoop Dogg er yngri en maður heldur og hvað osteópati gerir.
Fundurinn byrjaði með þriggja mínútna erindi frá undirrituðum. Þar sagði hann frá því spennandi starfi sem fram fór á síðasta Umdæmisþingi. Kröftugt fólk með stór hjörtu sem fylla raðir Rotary á Íslandi er í raun það minnisstæðasta sem tekið er frá þinginu. Undirritaður kann að hafa farið aðeins á undan sjálfum sér í erindi sínu með því að líkja veru sinni í Rotary við framgang myndarinnar ,,Total recall” frá árinu 1990 en hann kýs að halda sér samt við þá líkingu.
Þeir Unnar Már og Jón Oddur tóku við og sögðu frá nýrri heilsustöð, Sigma heilsa, sem þeir eru að setja á laggirnar í Urriðaholti. Unnar sem er osteópati sagði frá þeim fræðum ásamt að deila sinni eigin persónulegri reynslu af osteopata sem líktist einna helst kraftaverki.
Jón sagði okkur frá þeirra sýn á heilsu og líðan. Komu þeir með dæmi um hvað hægt væri að gera til að bæta þetta tvennt.
Kjarni fyrirlestursins var að nálgast heilsu og líðan eins og hverjum hentar, af skynsemi og röksemd.
Í lokin buðu þeir alla velkomna til sín þegar heilsustöðin opnar. Ljóst er að þetta verður góð búbót í flóru lýðheilsu Garðbæinga.
Tveir hlekkir fylgja með hér að neðan sem verða væntanlega virkari þegar stöðin opnar.
Sigma heilsa á Instagram
Sigma heilsa, heimasíða