Frábær fundur sem var í umsjón viðskiptaþjónustunefndar. Góðar ákvarðanir - Innsýn í hvernig hugurinn virkar við ákvarðanatöku.
Fundurinn var haldinn í Vistor Í Garðabæ, þar sem GKG gat ekki hýst okkur í dag.Hrannar var með þriggja mínútna erindi en hann sagði okkur frá áhugaverðum vef www.coursera.org Þar er hægt að finna fjölmargt spennandi efni til að læra á netinu, allt frá stuttum námskeiðum yfir í lengri prógröm. Svo nú er bara að drífa sig af stað í lærdóminn.
Aðal fyrirlesarar dagsins voru tveir að þessu sinni, Haukur Ingi Guðnason og Marta Gall Jörgensen en þau starfa við mannauðsrannsóknir og ráðgjöf hjá Gallup á Íslandi. Erindi þeirra nefndist Góðar ákvarðanir – Innsýn í hvernig hugurinn virkar við ákvarðanatöku.
Almennt gerum við ráð fyrir að taka ákvarðandi út frá rökum og skynsemi sem er þó sjaldnast til staðar eins og við höldum. Það eru aðrir þættir sem hafa áhrif á það. Við erum jú hönnuð til að spara orku og förum gjarnan styttri leiðina ef hún er fyrir hendi (svona eins og sást á myndinni af af göngustígnum þar sem búið var að stytta leiðina).
Sjónvillur hjá okkur eru algengar eins og dæmið sýndi sem þau lögðu fyrir okkur með mynd af tveimur mismunandi borðum. Öll vorum við sannfærð um að annað borðið væri lengra en hitt en raunin var önnur. Sjónskyn okkar er stórt og hefur þróast lengi, ef við gerum slíkar villur með sjóninni þá er hægt að álykta að við gerum það líka á öðrum sviðum.
Þau töluðu um tvö kerfi heilans.
· Hæg úrvinnsla: þessi mannlegi hluti heilans.
· Hröð úrvinnsla: dýrslegt eðli, virkar hratt og óskynsamlegar hvatir ráða för.
En við teljum okkur vera hæg.
Þumalputtareglur eru hugsanaskekkjur. Við getum ekki alltaf notað okkur hæga kerfið og styttum okkur því leið. Hugsanaskekkjur geta þýtt rökvillur. Til dæmis að hafa of mikla trú á eigin getu og hæfni í samanburði við aðra. Þau tóku tvö skemmtileg dæmi því tengdu. Ef menn eru spurðir hvort þeir séu greindir myndi meirihlutinn telja sig fyrir ofan meðalgreind. Einnig tóku þau dæmi af því þegar fólk var spurt hversu gott það teldi sig vera sem ökumann, svara lang flestir því að þeir séu yfir meðallagi eða í meðallagi. Sem gengur auðvitað ekki upp. Við sjáum oft það sem við viljum sjá og teljum okkur oft góð í því að spá fyrir um framtíðina. Þar tóku þau annað skemmtilegt dæmi um yfirmenn sem fær til sín tvo starfsmenn á sama tíma og hann ályktar að annar þeirra muni standa sig mun betur að ári liðnu. Frammistöðumat staðfesti þetta svo. En yfirmaðurinn hefði þá e.t.v. ómeðvitað styrkt hann betur og gefur honum færi á að efla sig í starfi og þar með hafði hann rétt fyrir sér. Við sjáum oft það sem við viljum sjá. Við eltum oft hópinn í blindni og þar sýndu þau okkur líka gott dæmi, myndband af hegðun fólks á biðstofu þar sem allir hegðuðu sér eins og þeir héldu að ætti að gera, eltu hópinn. Dæmi um þetta væri einnig oft að finna í stjórnmálum, ein skoðun væri bara leyfð annað væri ekki samþykkt af hópnum.
Þeir valmöguleikar sem við höfum hafa áhrif á ákvarðanatöku. Þar fengum við líka góð dæmi af því þegar vöru er stillt upp í verslunum eða þegar við erum að kaupa vöru og þjónustu á netinu, hvernig möguleikunum er stillt upp sem hefur mikil áhrif á það sem við ákveðjum að velja.
Ef við erum óskynsöm, í hvaða aðstæðum erum við líkleg til að taka rangar ákvaðanir.
Það er þrennt sem gott er að hafa í huga varðandi ákvarðanatöku og skiptir mestu máli.
1. Vera meðvitaður um hugsanaskekkjur.
2. Aðskilja tilfinningar, ekki taka ákvörðun ef við erum í tilfinningalegu uppnámi.
Byggja ákvarðanir á gögnum ef það er hægt, þá eru hlutlausir aðilar sem hafa komið að.
Skemmtilegt og fróðlegt erindi með góðum dæmum. Margar spurningar og vangaveltur komu í lokin og ljóst að það hefði verið hægt að eyða miklu lengri tíma í þetta áhugaverða efni.