Rótarýdagurinn

sunnudagur, 1. mars 2020

hannaþóra

Fyrirlesari: Sævar Helgi Bragason



Góðan daginn kæru félagar,

Í tilefni af hinum árlega Rótarýdegi var í gær sameiginlegur fundur hjá Rótarýklúbbum Garðabæjar, Hof og Görðum. Fundurinn hófst með smá tölu hjá forsetunum Bjarna og Guðmundi en því næst hélt Þyri þriggja mínútna erindið sitt um söfnunaráráttuna. Einar félagi úr Görðum tók svo við með þriggja mínútna erindið sitt með sömu yfirskrift en þessar þrjár mínútur urðu aðeins lengri og fór hann út um víðan völl með allar þær áráttur sem herjað getur á mannkynið.... eins og stjörnu Sævar benti svo skemmtilega á að þá myndu þeir tveir líklegast falla undir þá áráttu að geta ekki hætt að tala...?

Næst kynnti Klara, Jóhönnu Maríu en hún fór aðeins 15 ára gömul til Argentínu sem rótarý skiptinemi. Mjög skemmtileg frásögn og gaman að heyra hennar upplifun af þessu ævintýri.

Björn Thors forfallaðist þar sem hann lá veikur heima með flensu og því átti Stjörnu Sævar sviðið – smá tæknivesen sem minnti óneitanlega á tækniörðugleika söngvakeppninnar en um tíma voru allt að þrír karlmenn að greina vandamálið? ...þá nýtti okkar kona Sigríður Björk tímann og afhenti Smára garðyrkjustjóra Garðabæjar skjal þar sem Rótarýklúbbar Garðabæjar gáfu 115 tré til gróðusetningar - eina plöntu fyrir hvern klúbbfélaga.

StjörnuSævar tók svo við með þrælskemmtilegan fyrirlestur um allt milli heima og geima! Hvað getum við gert til að minnka kolefnissporið en um leið aukið lífsgæðin – við fengum nokkur góð heilræði eins og að nota það sem okkur var gefið, nef og fætur. Enn og aftur kemur fram hvað samvera spilar stórt hlutverk í aukinni hamingju.

Þessi samvera var góð ?