Þorsteinn Guðmundsson leikari með meiru var gestur dagsins.
Það var gaman að sjá hversu margir mættu á þessum kalda og snjóþunga fimmtudagsmorgni. Sérstaklega var ánægjulegt að fá þrjá gesti sem félagar okkar buðu með sér.
Þyri forseti setti fundinn sem var í umsjón starfsþjónustunefndar. Hún byrjaði á því að segja okkur frá Gísla okkar Ívarssyni en hann er sá eini í hópnum sem hefur fengið Paul Harrys orðu. Á síðasta ári fékk hann svo rúbín í orðuna sem er algjörlega frábært. Hún óskaði Gísla til hamingju. Þyri sagði okkur einig frá tveimur bréfum sem hefðu borist klúbbnum. Annað varðandi sumarbúðir Rótarý og hitt var póstur frá Suðurnesjum þar sem verið er að hvetja til félagaöflunar og benda á leiðir í þeim efnum.
Hrönn var með þriggja mínútna erindi. Hún sagði okkur frá spennandi ferðalagi sínu á síðasta ári til Jóradínu. Þar heimsótti hún meðal annars Montesorri skóla og var á meðal infæddra. Við fengum að sjá margar skemmtilegar myndir á stuttum tíma.
Aðalgestur dagsins var enginn annar en Þorsteinn Guðmundsson leikari með meiru. Hann sagðist ungur hafa farið í leiklistarnám og svo í uppistand. En fyrir fjórum árum fékk hann krabbamein og ákvað að nota þau tímamót til að gera eitthvað nýtt. Hann skráði sig í nám í sálfræði í HÍ og er að ljúka því í vor. Hann sagði það mikilvægt í veikindum að hafa eitthvað annað að hugsa um en veikindin en í dag væri hann laus við krabbameinið. Þegar hann var hálfnaður með námð þá sá hann auglýsta stöðu verkefnastjóra Bataskólans og var ráðinn í verkið ásamt einum öðrum aðila. Hann fór því í það verkefni að búa til bataskóla að erlendri fyrirmynd því ekki þyrfti að finna upp hjólið. www.bataskoli.is
Bataskólinn er fyrir einstaklinga sem eru 18 ára og eldri og er þar um að ræða þrjá hópa;
· Fólk sem glímir við geðrænar áskoranir. Undir þeim hatti eru fjömargir eins og Þorsteinn sagði.
· Aðstandendur
· Starfsfólk á heilbrigðis- og velferðarsviði
Tilgangurinn skólans er ekki síst að fólk finni ánægjulegt líf, með eða án einkenna. Búið er að fjarlægja gamla læknisfræðilega módelið, að einstaklingurinn þurfi að vera laus við einkenni til að teljast hafa náð bata.Eins og Þorsteinn sagði á sinn gamansama hátt, þá erum við öll með ranghugmyndir ef út í það er farið. Skólinn nær yfir 7 mánaða tímabil og er samsettur af 18 mismunandi námskeiðurm. Hvert námskeið hefur tvö umsjónamenn. Annar er sérfræðingur og hinn er með reynslu. Þeir skipuleggja námskeiðin og kenna þau.
Áherslan er að vera skóli ekki meðferð. Unnið er með þrjú gildi sem eru
· Von
· Stjórn
· Tækifæri
Mun fleiri sækja um en komast að. Konur eru um 60% og meðalaldur er 40 ár. Nemendum er skipt upp eftir aldri í tvo bekki. 18 til 28 ára og eldri en 28 ára. Í upphafi var um að ræða tilraunaverkefni til þriggja ára með framlagi frá Reykjavíkurborg ásamt styrkjum frá ýmsum aðilum. Núna er þriðja árinu að ljúka en planið er að halda áfram og þetta festist í sessi. Efnið kveikti á ýmsum spurningum í lokin. Það var skemmtilegt að hlusta á Þorstein þó hann væri að ræða um alvarlegt málefni enda flaug tíminn frá okkur áður en við vissum af.