Fundargerð 14. febrúar 2019

fimmtudagur, 14. febrúar 2019

Sigurjóna Jónsdóttir

Tónlist, Alzeimer og Rótarýdagurinn voru meðal þess var rætt í dag.

Þyri setti fundin sem var númer 22 á starfsárinu.Hún minnti á Rótarýdaginn sem verður laugardaginn 23. febrúar. Hún hvatti okkur til að deila viðburðinum á samfélagsmiðlum þó við værum ekki formlegir þátttakendur.  Hún minnti okkur líka á að gestir sem við tökum með í eitt skipti á fundi, borga ekki fyrri veitingar en þurfa að gera það ef þeir mæta oftar.
Guðrún var með þriggja mínútna erindið. Hún sagði okkur frá bók sem hún hefur verið að lesa og fjallar um Alzeimer sjúkdóminn. Amma hennar fékk Alzeimer og það dró athygli hennar að málinu. Niðurstaða höfunda er sú að um sé að ræða lífsstílssjúkdóm. Þar sé neysla dýraafurða stærsti áhættuþátturinn. Í kjölfarið varð nokkur umræða um heilsu og lífstílssjúkdóma þar sem þrjár mínúturnar urðu óvenju langar þar sem aðalfyrirlesarinn tafðist. En hann skilaði sér á endanum, hinn fjölhæfi tónlistarmaður Sigtryggur Baldursson. Hann er framkvæmdarstjóri ÚTÓN, Útflutningsmiðstöðvar íslenskrar tónlistar og tók hann við því starfi árið 2014.
Sigtryggur sagði að skrifstofan hefði verið stofnuð að norrænni fyrirmynd árið 2006 að frumkvæði útflutningsráðs. Hann sagði að skrifstofan væri upplýsingaveita og upplýsingamiðlun í tengslum við ýmislegt sem tengist tónlist.
Hann sagði að ÚTÓN héldi úti tveimur vefsíðum, www.icelandmusic.is  og  www.uton.is sem er ætluð íslensku tónlistarfólki, upplýsingaveita fyrir íslenska tónlistargeirann. Sigtryggur sagði að „zink“ eða kaup á tónlist svo sem Netflix væri orðinn gríðar stórt. Einnig tónlist í tengslum við tölvuleikjabransann, sem væri í raun og veru orðin miklu stærri en kvikmyndabransinn. Hann sagði að í dag væri sala tónlistar orðin lítil á geisladiskum, þar værum við meira að tala um streymisveitur á borð við spotify. Hann sagði að því væri spáð að eftir nokkur ár myndi gervigreind geta séð um allt utanumhald tónlistar á netinu svo greiðslur færu beint til höfunda. Í dag eru t.d. útgefendur að fá hluta af greiðslum sem streymisveiturnar greiða og þar af leiðandi fær höfundur minna í vasann.
Sigtyggur sagði að mikil breidd væri í tónlistinni, t.d. væru menn bara þekktir á ákveðnum afmörkuðum sviðum tónlistarinnar.
Hann sagðist oft vera spurður af því hvers vegna svona margt tónlistarfólk frá Íslandi væri þekkt. Svarið við því væri ekki lengur fallegt land. Hann teldi skýringuna vera þá að markaðurinn hér væri svo lítill og þá verði menn að finna sér stærra svæði og hugsa hlutina út fyrir Íslandi. T.d. væri auðveldara að lifa á tónlist í stærri löndum og þá myndu menn bara horfa á það. Engu að síður væri staðreynd að margir hefðu lifibrauð af tónlist á Íslandi þó þeir væru lítið þekktir út fyrir landssteinana.
Hann sagði að það hefði orðið sprengin í framleiðslu myndefnis á netinu síðustu 5 árin.
Það getur verið ábatasamt að fá tónlist í Ameríska þætti og sem dæmi þá er greiðslan 10 þúsund dollarar fyrir lag þar.
Erfitt hefur verið að fá hagtölur fyrir skapandi greinar á Íslandi en það stendur til bóta. Margt tónlistarfólk er ekki skráð á Íslandi og þar nefndi hann t.d. Sigurrós. Of Monsters and men væri það aftur á móti og hefðu þau skilað ársreikningi á síðasta ári sem væri á við rekstur togara.
Í lokin minnti Sigtryggur okkur á að tónlist er listgrein en líka starfsgrein.