Fjölbreytt efni var til umfjöllunar á fundi morgunsins. Þar má nefna ferðalög, frumkvöðla, umhverfismál og vinaskiptaverkefni Rótarý.
Guðmundur viðtakandi forseti setti fundinn sem var sá 28. á starfsárinu. Hann minnti okkur á fatasöfnun Nepalfara sem leggja af stað í næstu viku. Afmælisbörn mars voru þrjú, Elísabet, Jóna og Sigurjóna.
Róbert Melax frá Rótarýklúbbnum Landvættum heimsótti okkur. Hann sagði örstt frá vinaskiptaverkefni Rótarý. Þar taka Rótarýfélagar sig saman og heimsækja hvern annan, landa á milli. Hann hvatti okkur til að vera í sambandi ef áhugi væri fyrir slíku.
Heimir félagi okkar var með þriggja mínútna erindi en það var einskonar hugvekja um umhverfismálin. Hann vísaði í hina sænsku Grétu sem fyrirmynd og áhrifavald og einnig í börnin sín sem hefðu vakið hann til umhugsunar. Hugleiðing Heimis var þessi: Að Rótarýhreyfingin á alþjóðavísu taki upp umhverfismál.
Segja má að framsýnir frumkvöðlar hafi verið megin þemað í fróðlegu erindi Páls Guðmundssonar framkvæmdastjóra Ferðafélags Íslands en hann var fyrirlesari dagsins.
Félagið var stofnað árið 1927 að norskri fyrimynd. Árið 1929 var fyrsta árbók félagsins gefin út. Þar skrifa frumkvöðlar að ferðamönnum á Íslandi muni líklega fjölga á næstu árum og huga þurfi að uppbyggingu innviða. Bara nánast eins og þetta hefði verið skrifað nýlega.
Í dag eru um 10 þúsund félagsmenn í Ferðafélagi Íslands. Félagið gefur út árbók, auk þess smárit, gönguleiðarit og fleira. Páll gaf okkur nokkur eintök af þessari fjölbreyttu útgáfu félagsins.
Áhersla hefur verið á samstarf við norska ferðafélagið sem er mjög öflugt og reynt að læra af því. Þar nefndi Páll sem dæmi Ferðafélag barnanna (frá 6 til 18 ára). Einnig hefur verið reynt að koma á fót FÍ - ung fyrir 18 til 26 ára. Rekstur skálanna er umfangsmikill í starfi félagsins og byggir mikið á sjáflboðaliðastarfi. Og í lokin ein, skemmtileg tilvitnun úr árbókinni frá 1929 “ef þér eruð á ferðalagi með öðrum reynið þá að vera hress”