Fundargerð 17. janúar 2019

fimmtudagur, 17. janúar 2019

Sigurjóna Jónsdóttir

Barnahús í Evrópu voru til umfjöllunar þegar Bragi Guðbrandsson kom í heimsókn.

Fundurinn í dag var í umsjón Alþjóðaþjónustunefndar og áfram voru börnin til umfjöllunar. Þriggja mínútna erindið féll niður vegna forfalla.
Gestur dagsins var Bragi Guðbrandsson en hann hefur mikla reynslu af störfum í þágu barna.  Erindi hans nefndist Barnahús og útbreiðsla þess í Evrópu.
Bragi situr núna í barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna og var forstjóri Barnahúss. Núna  starfar Bragi við innleiðingur Barnahúsa í fjölmörgum löndum.
Hann segir sérstöðu kynferðisbrota gegn börnum vera þessa:

 

·         Börn kæra ekki og erfitt fyrir þau að segja frá ·         Gerendur eru oftast í nærumhverfi barnsins ·         Skortur á sönnunargögnum, svo sem læknisfræðilegum (því oft eru brot gömul)

 

 

Kynferðisbrotamál eru ekki bara sakamál heldur líka heilbrigðismál og barnaverndarmál. Í því sambandi hafa allar stofnanir mikilvægu hlutverki að gegna. Börnin þurftu áður að fara á milli stofnana, t.d. að mæta í réttarsal til auglitis við brotamann. Slíkt getur skaðað rannsóknarhagsmuni, auðvelt getur verið að leiða barn í ógöngur og fá fram það sem menn vilja fá. Hann tók dæmi um spurninguna: hefur þú séð krókódíl éta banana í flugvél?  Ef barnið heldur að það eigi að svara spurningunni játandi getur það gerst á sannfærandi hátt.  Þetta allt er megin ástæða þess að Barnahús opnaði 1998. Þetta var einnig gert til að hafa miðlægt „batterí“ þar sem sveitarfélögin í landinu voru og eru fjölmörg. Þar með var hægt að koma á fót faglegum vinnubrögðum til að hámarka áreiðanleika. Umhverfi barnsins skiptir þarna miklu máli. Frásögn barnsins er lykillinn, endurtekin viðtöl við barn sem tekin eru af mismunandi aðilum og á ólíkum stöðum hafa í för með sér vanda sem er annars vegar skaðlegt heilsu barnsins og hins vegar skaðar það rannsóknarhagsmuni.
Meginmarkmið Barnahúss er að hafa barnvænan samstarfsvettvang allra stofnana sem hafa hlutverki að gegna þegar mál eru í vinnslu. Þar eru tvö grundvallar mannréttindarsjónarmið höfð að leiðarsljósi. Regla um réttláta málsmeðferð og reglan um „það sem er barni fyrir bestu“

Í Barnahúsi fer fram:

·         Læknisskoðun og mat ·         Rannsóknarviðtöl, skýrslutaka fyrir dómi, könnun ·         Greining og meðferð fyrir börn sem þolendur ·         Ráðgjöf fyrir foreldra og aðstandendur ·         Ráðgjöf og stuðningur við börn í héraði ·         Fræðsla, þjálfun og gagnaöflun

 Það verður til mikil þekking þegar hægt er að safna öllu saman á einn stað, t.d. er hægt að svara því strax hvað mörg mál eru í vinnslu. Húsið er staðsett í íbúðarhverfi í Breiðholti. Reynt er að hafa það heimilislegt og aldurssamsvarandi en börnin eru á aldrinum 3 til 18 ára.
Bragi sagði að búið væri að koma á fót  Barnahúsum í fjölmörgum löndum, þar á meðal 30 húsum í Svíþjóð og 11 í Noregi. Mörg lönd eru í pípunum. Þegar svo er komið þá opnast sá mögleiki að koma þessu inn i alþjóðlega samninga. Barnahús er orðið alþjóðlegt heiti. Auk þessa er mikið rannsóknarstarf tengt Barnahúsum. Árlega koma 300 börn í Barnahúsið hér á landi og um 30 til 40 mál enda fyrir dómi. Í lokin voru ýmsar spurngar sem vöknuðu hjá fundargestum og greinilegt að Bragi hefur unnið mikið frumkvöðlastarf í þessum mikilvæga málaflokki.